Ásamt samantektinni hér að neðan og kynningarmyndböndunum sem fylgja er áhugasömum einnig bent á undirsíðu okkar um vöktunaráætlanir og niðurstöður vegna styrktra verkefna úr Veiðikortasjóði frá árinu 2016.
Bjargfuglar
Náttúrustofa Norðausturlands vaktar bjargfuglastofnana álku, stuttnefju, langvíu, ritu og fýl víða um land með talningum á sniðum og vöktunarmyndavélum. Þessar tegundir sýna mismunandi þróun frá árinu 2009 þar sem nokkuð jákvæðar fréttir eru af álku og langvíu, neikvæðar af fýl og misjafnar af ritu og stuttnefju sem báðum fækkar í sumum björgum en fjölgar í öðrum. Vöktunarskýrsla Náttúrustofunnar og kynningin hér að neðan veita nánari innsýn inn í þróunina á hverjum vöktunarstað fyrir hverja tegund.
Díla- og toppskarfur
Skarfastofnarnir eru vaktaðir af Náttúrufræðistofnun þar sem flogið er yfir byggðir þeirra og hreiður talin, ásamt myndagreiningu á aldurssamsetningu stofnanna tvisvar á ári. Stofnarnir eru báðir heilbrigðir og hafa náð sér á strik eftir mikil afföll á hreiðrum árið 2023 í kjölfar veðurofsa á varptímabilinu. Vöktunarskýrsla Náttúrufræðistofnunar og kynningin hér að neðan fara dýpra í málið.
Lundi
Náttúrustofa Suðurlands vaktar lundastofninn, meðal annars með því að ferðast hringinn í kringum landið og skoða 12 stærstu lundabyggðirnar. Viðkoma ársins 2025 var betri í þeim landshlutum sem tóku djúpa dýfu í fyrra (Norðurland og Vesturland), stóð í stað á Austurlandi og var verri í Vestmannaeyjum þar sem stærsta byggðin er. Yfir landið í heild var viðkoman undir sjálfbærnimörkum sem þýðir að stofninn stendur ekki undir sjálfum sér. Frekari upplýsingar um vöktunina og niðurstöður má nálgast í kynningunni hér að neðan en vöktunarskýrsla fyrir árið er væntanleg á vormánuðum 2026.
