Til baka
21 október 2025
Upphaf rjúpnaveiða

Rjúpnaveiðar hefjast föstudaginn 24. október næstkomandi og er það annað árið sem veiðitímabilið er samkvæmt veiðistjórnunarkerfi stjórnunar- og verndaráætlunar sem samþykkt var af ráðherra 11. september í fyrra.
Fyrirkomulag
Stærsta breytingin sem fylgdi stjórnunar- og verndaráætlun er að nú hefur verið tekin upp svæðisbundin veiðistjórnun og því er veiðitímabilið mislangt eftir landshlutum. Það er á ábyrgð veiðimanna að kynna sér vel skiptingu veiðisvæða en það er hægt að gera á veiðum með því að nota kortasjá.
· Opnið kortasjá í snjalltæki
· Veljið þekju fyrir veiðisvæði
· Virkið staðsetningu uppi í hægra horni
Með þessu móti er auðvelt að fylgjast með eigin staðsetningu með tilliti til marka veiðisvæða. Fyrir notendur staðsetningartækja eins og Garmin, þá er hér hægt að nálgast KLM skrá fyrir mörk veiðisvæða.
Skoða aðrar veiðireglur og dagatöl
Vængjasöfnun
Aldursgreining úr afla er lykilbreyta við útreikninga á stofnstærð. Það er því mjög mikilvægt að safna slíkum gögnum. Náttúruverndarstofnun biðlar til veiðimanna að leggja Náttúrufræðistofnun lið við söfnun rjúpnavængja. Í fyrra vantaði aðeins upp á sýnastærð vængja frá Suður- og Vesturlandi og því eru veiðimenn þaðan sérstaklega hvattir til þess að senda inn vængi.