Framhlaup í Dyngjujökli 1977. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson, 27. september 1977.
- Fólki er bent á að gæta sérstakrar varúðar á ferðalögum á Dyngjujökli þar sem sprungumyndun er líkleg á svæðum sem hafa verið greiðfær og ósprungin í 20 ár.
- Dyngjujökull er þekktur framhlaupsjökull og að jafnaði líða 20 til 30 ár á milli framhlaupa.
- Framhlaup er óregla í hreyfingu jökla sem felur í sér tímabundna og mikla hröðun á skriði, oft tífalt, hundraðfalt eða meira, og jökullinn springur upp á stórum svæðum.
- Umfang framhlaupsins er enn óljóst en hægt er að miða við svæðið sem síðasta framhlaup náði til.
- Afrennsli eykst í framhlaupum og vatn sprettur fram á stærra svæði en venjulega auk þess sem aurburður í ám vex margfalt.
- Innlendar stofnanir fylgjast með þróuninni í samstarfi við erlenda rannsóknaraðila.
Fyrstu merki um framhlaup koma oft fram sem aukinn skriðhraði nærri jafnvægislínu nokkrum árum áður en verulega herðir á hraðanum. Framhlaup er óregla í hreyfingu jökla sem felst í því að jökulskriðið herðir tímabundið á sér, oft tífalt, hundraðfalt eða jafnvel meira, og jökullinn springur allur upp (Jöklafræði - Vatnajökulsþjóðgarður). Í framhlaupum flyst ís af safnsvæðinu og jökulyfirborðið lækkar en þykknar á leysingarsvæðinu og sporðurinn gengur fram um hundruð metra eða jafnvel marga kílómetra. Samfara þessu eykst afrennsli frá jöklinum og vatn sprettur fram undan jökulsporði mun víðar en alla jafna. Aurburður í ám sem frá jöklinum falla vex margfalt. Fyrir áhugasama er nánari upplýsingar um framhlaup í jöklum hér á landi og í öðrum löndum er að finna í yfirlitsgreinum í lista hér að neðan.
Ekki er alveg ljóst hversu stórt áhrifasvæði framhlaupsins verður en vert er að vara við ferðum á Dyngjujökli (Travel conditions - Safetravel). Líklega hafa nú þegar myndast sprungur á svæðum sem hafa verið greiðfær og ósprungin síðastliðin 20 ár.
Fylgst verður með framhlaupinu í samstarfi innlendra stofnana (Jarðvísindastofnunar Háskólans, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnunar) og erlendra samstarfsstofnana með margvíslegri gagnaöflun og greiningu. Hafinn er undirbúningur að loftmyndatöku, greiningu á fjarkönnunargögnum, GPS-mælingum, rennslismælingum, greiningu vatns- og aurburðarsýna og uppsetningu hikmyndavéla til þess að skrásetja framhlaupið.

Nánari upplýsingar
- Framhlaup að hefjast í Dyngjujökli | Jarðvísindastofnun HÍ
- Helgi Björnsson, Finnur Pálsson, Oddur Sigurðsson, G. E. Flowers (2003). Surges of glaciers in Iceland. Annals of Glaciology, 36, 82–90. https://doi.org/10.3189/172756403781816365
- Raymond, C. F. (1987). How do glaciers surge? A review. Journal of Geophysical Research: Solid Earth, 92(B9), 9121–9134. https://doi.org/10.1029/JB092iB09p09121
- Harrison, W. D., A. S. Post (2003). How much do we really know about glacier surging? Annals of Glaciology, 36, 1–6. https://doi.org/10.3189/172756403781816185
- Vísindavefurinn: Getið þið útskýrt framhlaup jökla?
