Hreindýrafréttir

15. júlí 2025 - fyrsti veiðidagur.

Fyrsti veiðidagur tímabilsins. Oft hafa menn nú fellt strax uppúr miðnætti en svo var ekki nú, kannski hafði það áhrif að þokan læddist inn á Austfirðina undir kvöld þann 14. Eiður Gísli kíkti eftir törfum með einn veiðimann á sv. 7 en varð frá að hverfa. Nú eru menn byrjaðir að skrá sig á veiðar þó að sennilega verði nú dálítið heitt að klífa fjöll í dag þar sem þannig háttar til. Tarfarnir fara jú upp þegar er svona heitt. Tóti Borgars fer með einn veiðimann á sv. 3, Skúli Ben. með einn á sv. 9, þar sem Guðmundur Tryggvi er einnig með þrjá veiðimenn. Eiður Gísli fer með tvo til veiða á sv. 7.