Til baka

22 júlí 2025

Vonarskarð – stjórnunar- og verndaráætlun 

Til umsagnar er breytingatillaga að stjórnunar- og verndunaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs er varðar Vonarskarð. Umsagnarfrestur er til og með 3. september 2025. 

Þjóðlendan Vonarskarð, sem er á mörkum sveitarfélagana Ásahrepps og Þingeyjarsveitar, var skilgreind sem vettvangur göngufólks án truflunar frá vélknúnum ökutækjum samkvæmt 1. útgáfu stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins sem kom út 2011. Við staðfestingu annarrar útgáfu, árið 2013 beindi þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra þeim tilmælum til stjórnar þjóðgarðsins „að skoða þetta [umferð um Vonarskarð]  sérstaklega og hafa samstarf við helstu hagsmuna- og umsagnaraðila um málefni Vonarskarðs í því skyni að tryggja að sem best sé haldið á hagsmunum náttúruverndar og útivistar. Þannig vill ráðuneytið halda áfram þeirri viðleitni að skapa sem mesta sátt um þjóðgarðinn.”  

Það vinnuferli sem leitt hefur til þeirrar breytingatillögu sem hér liggur til umsagnar hefur verið langt og umfangsmikið. Öll gögn málsins liggja fyrir hér á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs. Formleg ákvörðun var tekin á 205. fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þann 18. nóvember 2024. Þar samþykkti stjórn með meirihluta atkvæða að hefja ferli breytinga á stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins með það fyrir augum að opnað verði fyrir vélknúna umferð um Vonarskarð til 5 ára í tilraunaskyni. 

Svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs leggur fram breytingatillögu á stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins um umferð vélknúinna ökutækja og reiðhjóla um Vonarskarð. Breytingin er sett fram sem bráðabirgðaákvæði í stjórnunar- og verndaráætlun sem falla munu út að 5 árum liðnum nema að til komi ný ákvörðun svæðisstjórnar á tímabilinu. Samhliða breytingatillögu er vöktunaráætlun lögð fram en áætlanirnar tvær munu fylgjast að í ferlinu og er vöktunaráætlun ætlað að tryggja að náttúruvernd sé höfð að leiðarljósi í tilraunaverkefninu sem tillögurnar gera ráð fyrir. 
 
Stjórnunar‐ og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð er sett fram í samræmi við ákvæði laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007 og reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020. Breytingatillagan er lögð fram af svæðisstjórn í samræmi við 7. mgr. 12. gr. laganna en þar segir að „stjórn þjóðgarðsins geti lagt til breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun án þess að um það berist tillaga frá viðkomandi svæðisráði. Í þeim tilvikum skal ávallt leita umsagnar viðkomandi svæðisráðs áður en tillagan er send ráðherra“. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum 4.–6. mgr. Sameina skal viðaukann við stjórnunar- og verndaráætlun við næstu endurskoðun hennar.  
 
Svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs samþykkti að hefja kynningu á breytingartillögu að stjórnunar- og verndunaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs og meðfylgjandi vöktunaráætlunar á 210. fundi sínum þann 2. júlí 2025 og svæðisráð vestur tók áætlanirnar til umfjöllunar á fundi þann 7. júlí 2025. Bent er á fundargerðir hér á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs.  
 
Breytingartillagan, sem nálgast má hér, liggur nú frammi til kynningar. Frestur til að skila umsögnum er til og með 3. september 2025. 
 
Óskað er eftir athugasemdum frá almenningi við drög að áætluninni. Upplýsingar veita  Davíð Örvar Hansson (david.o.hansson@nattura.is) og Stefán Frímann Jökulsson (stefan.f.jokulsson@nattura.is).  
 
Umsögnum skal skila á netfangið nattura@nattura.is