Til baka

17 júlí 2025

Veiðitímabil rjúpu 2025

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Náttúruverndarstofnun hefur sent inn veiðistjórnunartillögur fyrir rjúpu árið 2025 til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Tillögurnar byggja á stofnmati Náttúrufræðistofnunar og Dr. Fred Johnson og stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu sem var undirrituð og staðfest af ráðherra árið 2024. 

Tillögur Náttúruverndarstofnunar 

Veiðitímabil rjúpu árið 2025 hefst föstudaginn 24. október á öllum veiðisvæðum. Veiði er heimil frá og með föstudegi til og með þriðjudags innan tímabils hvers veiðisvæðis. Því er óleyfilegt að veiða rjúpu miðvikudaga og fimmtudaga.  

Tillögur Náttúruverndarstofnunar að fjölda veiðidaga (lengd veiðitímabils) eru eftirfarandi:  

Austurland: 45* (24. okt – 22. des)   

Norðausturland: 30 (24. okt – 02. des)

Norðvesturland: 20 (24. okt – 18. nóv)

Suðurland: 15 (24. okt – 11. nóv)

Vesturland: 30 (24. okt – 02. des)

Vestfirðir: 20 (24. okt – 18. nóv)

*44 raunveiðidagar þar sem lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum kveða á um að aflétting friðunar á rjúpu megi ekki vara lengur en til 22. desember.

Tillögurnar í heild sinni má lesa hér. 

Stofnmat Náttúrufræðistofnunar og Dr. Johnson má lesa hér. 

Veiðistjórnunarkerfið og takmarkanir 

Líkt og áður segir eru tillögurnar byggðar á stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu sem var gefin út í fyrra. Þetta er því annað árið sem þetta veiðistjórnunarkerfi er notað, en helstu þættir þess eru ný aðlögunarhæf stofnlíkön, svæðisskipting (sjá mynd með frétt og kortasjá) og fastir stjórnþættir er varða vikudaga, heila daga og svo framvegis. Veiðitímabil hvers svæðis er ekki háð öðrum svæðum heldur stjórnast af ástandi stofnsins innan svæðisins. Minnt er á að sölubann er á rjúpu. Veiðar eru áfram óheimilar á Reykjanesi (Landnám Ingólfs). 

Image

Athugasemdir 

Hægt er að senda inn athugasemdir varðandi tillögurnar til og með 24. júlí með því að senda tölvupóst á nattura@nattura.is. Þau sem hyggjast gera slíkt eru hvött til þess að kynna sér stjórnunar- og verndaráætlunina áður en spurningar eru sendar inn þar sem hún útskýrir fasta stjórnþætti og aðferðafræði við ákvarðanatöku á lengd veiðitímabils.