Til baka

22 ágúst 2025

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Dyrfjöll og Stórurð staðfest af ráðherra

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun landslagsverndarsvæðis norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð.   

Stjórnunar- og verndaráætlun er stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við landeigendur og sveitarfélag og í samráði við fjölmarga hagsmunaaðila, með það að meginmarkmiði að mótuð sé sameiginleg sýn fyrir svæðið. Það er von samstarfshóps að hér sé komin fram sýn um hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins. 

Á vinnslutíma áætlunarinnar var haldinn íbúafundur í Hjaltalundi um framtíð svæðisins. Þar sköpuðust umræður, fólk kom með hugmyndir um innviðauppbyggingu og öllum gafst færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Gott samstarf var við fulltrúa Múlaþings og almenn sátt náðist um stjórnunar- og verndaráætlunina heima í héraði. 

Áætlunin fór í opið kynningarferli í janúar 2024 og var gefinn frestur til 17. mars til að skila athugasemdum og ábendingum. Átta erindi bárust á kynningartíma. 

Áætluninni var vísað til ráðherra til staðfestingar í maí 2024 en í kjölfar stjórnarslita og stofnanabreytinga tafðist undirritun. Þann 9. júlí síðastliðinn var uppfærð stjórnunar- og verndaráætlun með útliti nýrrar Náttúruverndarstofnunar send ráðherra til staðfestingar. 

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Dyrfjöll og Stórurð er sú fyrsta sem staðfest er á tíð Náttúruverndarstofnunar og er það von allra að áætlunin muni gagnast sem stefnumótandi áætlun fyrir stjórnun og rekstur svæðisins.