Til baka

3 september 2025

Ragna Fanney Jóhannsdóttir hefur tekið við starfi þjóðgarðsvarðar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs

Ragna Fanney Jóhannsdóttir hefur tekið við sem þjóðgarðsvörður austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs hjá Náttúruverndarstofnun frá 1. september þegar Agnes Brá Birgisdóttir lét af störfum.

Ragna Fanney Jóhannsdóttir hefur tekið við sem þjóðgarðsvörður austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs hjá Náttúruverndarstofnun.

Ragna Fanney hefur starfað á austursvæði þjóðgarðsins síðan Snæfellsstofa á Skriðuklaustri opnaði árið 2010. Hún byrjaði sem þjónustufulltrúi en hefur síðan bæði starfað sem aðstoðarþjóðgarðsvörður og leyst þjóðgarðsvörð af. Ragna Fanney er með BSc gráðu í ferðamálafræði með viðskiptafræði sem aukagrein og skrifaði lokaritgerð um fornleifauppgröftinn á Skriðuklaustri og menningartengda ferðaþjónustu. Auk þess hefur Ragna Fanney mikinn áhuga á útivist og náttúruvernd. Ragna Fanney býr á Egilsstöðum ásamt manni sínum og börnum og verður með starfsaðstöðu í Fellabæ og Snæfellsstofu.

Agnes hefur starfað sem þjóðgarðsvörður á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs frá stofnun þjóðgarðsins árið 2008 til. Hún hefur á þessum tíma lagt mikið af mörkum með hugsjóna- og brautryðjendastarfi og átt þátt í að móta náttúruvernd á landsvísu.

Náttúruverndarstofnun og samstarfsfólk þakka Agnesi kærlega fyrir vel unnin og óeigingjörn störf og óska um leið Rögnu Fanneyju velfarnaðar í nýju hlutverki.