Til baka

3 október 2025

Peatland LIFEline.is verkefnið hafið – Náttúruverndarstofnun meðal samstarfsaðila

Hópynd frá fundi á Hvanneyri: James Einar Becker

Hópynd frá fundi á Hvanneyri: James Einar Becker

Nýtt og metnaðarfullt verkefni, Peatland LIFEline.is, er nú hafið og miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Verkefnið er samstarf sjö stofnana og félagasamtaka: Landbúnaðarháskóla Íslands, Land og skógar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Fuglaverndar, Hafrannsóknastofnunar, Náttúruverndarstofnunar og bresku fuglaverndarsamtakanna Royal Society for the Protection of Birds. 

Verkefnið er að mestu fjármagnað af LIFE-sjóðnum, sem er hluti af umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Það hófst formlega 1. september 2025 og stendur til loka febrúar 2031, eða í 66 mánuði. Heildarkostnaður nemur rúmlega 8 milljónum evra, þar af leggur LIFE-sjóðurinn til um 6 milljónir evra, sem samsvarar um einum milljarði íslenskra króna. 

Áhersla á vistgerðir og fuglalíf

Markmið Peatland LIFEline.is er að efla yfirsýn og þekkingu á íslensku láglendisvotlendi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og hlutverki í kolefnishringrásinni. Sérstök áhersla er lögð á vistgerðina starungsmýravist, sem hefur mjög hátt verndargildi, auk fuglategundanna jaðrakans, stelkjar og lóuþræls, sem eru mikilvægir vísar um heilbrigði votlendis.

Íslenskt votlendi er einstakt í Evrópu, meðal annars vegna samspils ungs berggrunns, eldvirkni, áfoks og eldgosasögu. Þéttleiki fuglalífs er mikill og nokkrar tegundir reiða sig að stórum hluta á þessi svæði. Verkefnið mun leggja grunn að betri yfirsýn yfir ástand votlendissvæða og helstu áskoranir við endurheimt þeirra, auk þess sem lögð er áhersla á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.

Image

Kynningarfundur á Hvanneyri

Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn 22.–24. september á Hvanneyri í Borgarfirði og sóttu hann um 50 þátttakendur. Þar voru rædd skipulag, framtíðarverkefni og næstu skref í samstarfinu.

Á setningardegi flutti Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, ávarp þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi verkefnisins sem hluta af LIFE-áætlun Evrópusambandsins á sviði náttúru- og loftslagsmála. Hún tók einnig þátt í leiðsögn um Andakílsvæðið, sem er á Ramsar-skrá yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði.

Andakílssvæðið er eitt af þeim náttúruverndarsvæðum sem er í umsjón Náttúruverndarstofnunar og er það eitt af svæðunum sem farið í endurheimt votlendis í tengslum við LIFE verkefnið til að auka verndargildi þess. 

Nánar um Andakílssvæðið

Image
Image