Til baka
6 mars 2025
Opnunarhátíð Náttúruverndarstofnunar á Hvolsvelli

Fimmtudaginn 27. febrúar var haldin opnunarhátíð Náttúruverndarstofnunar á Hvolsvelli. Náttúruverndarstofnun tók formlega til starfa 1. janúar 2025 og er starfsemi hennar vítt og breitt um landið en höfuðstöðvar hennar eru á Hvolsvelli. Markmiðið með staðsetningu aðseturs Náttúruverndarstofnunar er að stuðla að því að starfsfólk starfi í auknum mæli á landsbyggðinni í grennd við viðfangsefnið sem í þessu tilfelli er náttúra landsins, umhverfi og auðlindir. Það var því tilefni til að bjóða til samkomu í Hvolnum, félagsheimili Rangárþings eystra. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, fyrrum sveitastjóra á Hvolsvelli, var falið fundarstjórn hátíðarinnar og þökkum við honum fyrir hjartanlega fyrir.

Ávörp voru frá Jóhanni Páli Jóhannssyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóra Náttúruverndarstofnunar og Antoni Kára Halldórssyni sveitarstjóra í Rangárþingi eystra.

Við opnunina voru ásýnd og merki Náttúruverndarstofnunar kynnt. Markmið vinnunnar var að skapa sjónrænt einkenni fyrir stofnunina þar sem virðing fyrir náttúrunni var höfð að leiðarljósi. Hægt er að lesa meira um það hér og kynna sér ásýndina frekar.
Einnig var opinbert kynningarmyndband Náttúruverndarstofnunar sem hægt er að finna hér en í því er stiklað á stóru í þeim margvíslegum verkefnum sem stofnunin sér um.

Nokkur tónlistaratriði voru frá fólki úr nærsamfélaginu. Þau Maríanna Másdóttir og Gísli Stefánsson sungu fyrir gesti við undirspil Glódísar Margrétar Guðmundsdóttur á píanó. Steingrímur Ari Helgason, nemandi í Tónlistarskóla Rangæinga, spilaði einnig listivel á píanó fyrir samkomuna og þökkum við þeim öllum kærlega fyrir.

Hlekkur á myndaalbúm á facebook
Við viljum þakka öllum þeim sem sáu sér fært á að koma í Hvolinn og fagna með okkur þessum stórmerkilega áfanga sem stofnun Náttúruverndarstofnunar er fyrir náttúruvernd á Íslandi.