Til baka

30 júní 2025

Lundastofninn viðkvæmur – vinna hafin við nýtt stofnlíkan og biðlað til hófs 

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Rannsóknir og vöktun á lundastofninum sýna að tegundinni hefur fækkað mikið við Íslandsstrendur síðustu 30 ár. Fækkunin stafar einkum af hlýnun sjávar, sem dregið hefur úr fæðuframboði, en einnig af uppsöfnuðum áhrifum veiða. 

Við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fékk Náttúruverndarstofnun tvo erlenda sérfræðinga, Fred A. Johnson og Carl Walters, til að greina áhrif veiða á stofninn. Niðurstöður þeirra benda til þess að áframhaldandi veiðar af sama umfangi og áður séu líklegar til að valda frekari rýrnun stofnsins. 

Í ljósi þessa biðla Náttúruverndarstofnun og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið til veiðimanna og veitingahúsa um að gæta hófs við nytjun lunda. Sérstaklega er hvatt til þess að endurskoða sölu lundakjöts á veitingastöðum, þar sem veiðar standa ekki undir því sem talist getur sjálfbær nýting. 

Unnið er að nýju stofnlíkani þar sem tekið verður tillit til sjávarhita og veiðiþols stofnsins, með það að markmiði að hægt verði að spá fyrir um æskilega veiði með nokkurra ára fyrirsjáanleika. Slík nálgun er til þess að fallin að stuðla að sjálfbærum veiðum í framtíðinni, en ólíklegt þykir að stofninn þoli veiðar af því magni að þær standi undir reglulegri sölu til veitingahúsa.