Til baka
9 september 2025
Landverðir sinna eftirliti með veiðum við Snæfell

Fram til loka hreindýraveiðitímabilsins munu landverðir í Snæfelli taka þátt í tilraunaverkefni og sinna eftirliti með hreindýraveiðum á svæði 2.
Fram til loka hreindýraveiðitímabilsins (til og með 20. september) ætla landverðir í Snæfelli að taka þátt í áhugaverðu tilraunaverkefni og sinna eftirliti með hreindýraveiðum á svæði 2 sem liggur að hluta innan Austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.
Landverðir í Snæfelli hafa hingað til fylgst með hreindýrahópum á svæðinu og miðlað upplýsingum til þeirra veiðimanna sem hafa komið inn á svæðið; um veður, færð og ferðir hreindýra. Nú verður sú breyting að landverðir munu einnig sinna eftirliti í tengslum við veiðarnar sjálfar, líkt og sérstakur veiðieftirlitsmaður hefur gert hingað til, en í því felst að ræða við hreindýraleiðsögumenn og veiðimenn og sjá til þess að öll tilskyld leyfi séu til staðar.
Við vonum að þessu tilraunaverkefni verði tekið vel og bjóðum alla leiðsögumenn og veiðimenn velkomna í kaffi og spjall í Snæfellsskála!
Bestu kveðjur,
Martína og Máni landverðir í Snæfelli