Til baka
9 janúar 2025
Hundaeigendur veri á varðbergi vegna fuglaflensu

Eins og fram hefur komið í fréttum drapst nýverið á Íslandi kettlingur af völdum skæðs afbrigðis fuglainflúensu (H5N5). Það er sama afbrigði og hefur greinst í villtum fuglum hér á landi frá því í september í fyrra og á einu alifuglabúi í byrjun desember. Læðan sem kettlingurinn var undan og annar kettlingur úr sama goti drápust eftir stutt veikindi tveimur dögum áður, en þau voru ekki rannsökuð.
Í frétt á vef Matvælastofnunar segir að skæð fuglainflúensa hafi undanfarin misseri greinst æ oftar í ýmsum tegundum spendýra víða um heim. Þessi þróun sýnir glöggt hæfni veirunnar til að aðlagast nýjum dýrategundum og er mikið áhyggjuefni.
Náttúruverndarstofnun beinir þeim tilmælum til veiðimanna að vera á varðbergi varðandi sjúka og dauða fugla. Veiðimenn með veiðihunda og aðrir hundaeigendur eru sérstaklega hvattir til að hafa hunda sína í taumi svo þeir komist síður í snertingu við dauða fugla.
Að lokum bendir Náttúruverndarstofnun á síðu Matvælastofnunar þar sem finna má upplýsingar um fuglaflensu. Þar eru einnig leiðbeiningar um hvað skal gera ef villtur fugl finnst dauður eða veikur og grunur er um fuglaflensu.