Til baka

14 febrúar 2025

Hreindýrakvóti ársins 2025

Upptaka af útdrætti á hreindýraleyfum


Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur auglýst hreindýraveiðikvóta ársins 2025. 

Umsóknarfrestur

Náttúruverndarstofnun annast sölu hreindýraveiðileyfa. Umsóknarfrestur er til og með mánudeginum 3. mars en umsóknum skal skilað hér:  www.ust.is/veidimenn. Útdráttur verður auglýstur síðar. Við vekjum athygli á að þar sem heimasíða Náttúruverndarstofnunar er enn í vinnslu er notast við heimasíðu Umhverfisstofnunar og nánari upplýsingar er að finna þar.

Veiðiheimildir

Heimilt er að veiða allt að 665 hreindýr árið 2025, 265 kýr og 400 tarfa. Þessi fjöldi er með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum.

Gjald

Veiðileyfagjaldið árið 2025 er kr. 231.600 fyrir tarf og kr. 132.000 fyrir kú. Veiðileyfagjaldið greiðist eigi síðar en 15. apríl. 

Veiðitímabil

Veiðitími tarfa er frá 15. júlí til og með 15. september. Á tímabilinu 15. júlí til 1. ágúst er veiði á törfum einungis heimiluð að því tilskildu að þeir séu ekki í fylgd með kúm og að veiðarnar trufli ekki kýr og kálfa í sumarbeit.

Veiðitími kúa er frá 1. ágúst til og með 20. september. Þeim eindregnu tilmælum er beint til veiðimanna að fyrstu tvær vikur veiðitíma skulu veiðimenn og leiðsögumenn í lengstu lög forðast að fella mylkar kýr og veiða eftir fremsta megni geldar kýr. Þessum tilmælum er ætlað að draga úr áhrifum veiða á kálfa og stuðla að því að kálfar verði ekki móðurlausir fyrir 12 vikna aldur. 

Sérstök tilmæli

Í því skyni að draga úr líkum á að hreindýrin á veiðisvæði 9 leiti milli sauðfjárveikivarnahólfa yfir í Öræfasveit skal eftir fremsta megni reynt að veiða sem stærstan hluta kvótans vestast á svæðinu í Suðursveit. Tilmælum þessum er einnig ætlað að stuðla að fækkun  hreindýra sem gengið hafa á Breiðamerkursandi og valdið þar skemmdum á viðkvæmum gróðri. 

Á tímabilinu 1. nóvember til og með 20. nóvember eru veiðar á kúm heimilaðar á svæði níu. Í umsókn um veiðileyfi er valið um veiði á hefðbundnum veiðitíma eða nóvemberveiðitíma.

Veiðiheimildir eftir svæðum

Veiðiheimildir árið 2025 skiptast sem hér segir eftir veiðisvæðum og kyni dýra:

AUGLÝSING