Til baka

12 september 2025

Grænlandsstofn blesgæsar í vanda – Ísland tekur þátt í aðgerðum

Grænlandsstofn blesgæsa, sem dvelur hér á landi á vorin og haustin, hefur dregist saman úr um 36.000 fuglum um aldamótin í innan við 15.000 í dag. Veðurfarsbreytingar og versnandi varpskilyrði á austurströnd Grænlands hafa haft mest áhrif á stofninn.

Stofninn hefur verið friðaður á Íslandi frá árinu 2006, en rannsóknir sýna að 11% fuglanna bera samt í sér högl. Það er því mikilvægt að efla fræðslu og samstarf við veiðimenn til að lágmarka tilviljanakennd afföll.

Vegna alvarlegrar stöðu stofnsins var boðað til fundar í Belgíu í júní með þátttöku Íslands, Bretlands, Írlands og Danmerkur þar sem samræmdar aðgerðir voru ræddar. Náttúruverndarstofnun, Skotveiðifélag Íslands og fleiri hagsmunaaðilar undirbúa nú fræðslu- og kynningarátak, ásamt því að kanna leiðir til að auðvelda veiðimönnum að greina á milli grágæsa og blesgæsa. Sérstök áhersla verður á að sýna varúð á helstu viðkomustöðum fuglanna á Suður- og Vesturlandi.

Mynd: Daníel Bergmann