Til baka
23 október 2025
Fuglaflensa greind í refum – veiðimenn hvattir til varkárni
Rjúpnaveiðar hefjast um helgina og gæsaveiðar eru nú í fullum gangi víða um land. Á sama tíma hefur fuglaflensa greinst í þremur villtum refum, tveimur frá Reykjanesi og einum frá Þingeyri, samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun.
Veiðimenn eru hvattir til að sýna varkárni við veiðar og verkun villtra fugla. Ekki skal veiða fugla eða nýta til matar sem haga sér óeðlilega eða eru sjáanlega veikir eða slappir. Þó skal tekið fram að fuglar sem virðast heilbrigðir geta einnig borið smit af fuglaflensu.
Náttúruverndarstofnun hvetur veiðimenn og aðra sem stunda útivist að vera á varðbergi gagnvart veikindum eða dauða villtra dýra, þar á meðal refa, og tilkynna slíkt til Matvælastofnunar.
Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar fyrir veiðimenn um meðhöndlun allra veiddra fugla á tímum fuglaflensu. Nánari upplýsingar má finna á vef Matvælastofnunar.