Til baka

18 september 2025

Breytingatillaga um Vonarskarð samþykkt í svæðisstjórn

Svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs samþykkti breytingartillögu sem heimilar vélknúna umferð og hjólreiðar í Vonarskarði frá 1. september ár hvert og þar til svæðið verður ófært. Breytingin gildir í tilraunaskyni til fimm ára og fylgir henni ítarleg vöktunaráætlun. Umferð um Vonarskarð verður, eftir sem áður, heimil í samræmi við lög um náttúruvernd, á frosinni og snævi þakinni jörð ef frá eru skilin jarðhitasvæðin.

Þegar stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs var samþykkt árið 2013 var lokað fyrir umferð í gegnum Vonarskarð og svæðið skilgreint sem göngusvæði. Síðan þá hefur verið tekist á um lokun fyrir umferð reiðhjóla og bifreiða en á fundi stjórnar í nóvember 2024 var tekin ákvörðun að hefja breytingaferli í tilraunaskyni.

Ákvörðun stjórnar verður nú vísað til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til staðfestingar.  Að því loknu verður hafist handa við að stika leiðina og gera nauðsynlegar ráðstafanir fyrir opnun.

„Með þessari ákvörðun er stigið mikilvægt skref í átt að málamiðlun sem sameinar ólík sjónarmið. Göngufólki er áfram tryggður friður yfir sumarið en haustopnun veitir fleiri hópum, þar á meðal öldruðum og hreyfihömluðum, aðgang að þessu víðáttumikla og einstaka svæði. Ákvörðunin er tímabundin og endurskoðanleg, byggð á vöktun og gögnum,“ segir Sigurjón Andrésson, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

Vonarskarð - greinargerð