Til baka
4 júlí 2025
Breytingatillaga um umferð um Vonarskarð send til svæðisráðs

Svæðisstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur samþykkt og vísað um leið breytingatillögu á ákvæðum stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins til umsagnar í svæðisráði vestursvæðis þjóðgarðsins.
Í 1. útgáfu stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs frá 2011 var kveðið á um að Vonarskarð skuli verða vettvangur göngufólks án truflunar frá vélknúnum ökutækjum. Í nóvember 2024 samþykkti stjórn að hafið yrði breytingaferli á stjórnunar- og verndaráætlun með það fyrir augum að heimila takmarkaða umferð vélknúinna farartækja um Vonarskarð. Á fundi stjórnar síðastliðinn miðvikudag var samþykkt tillaga um að heimila vélknúna umferð á ný um Vonarskarð, í tilraunaskyni til 5 ára. Vélknúin umferð yrði heimil eftir 1. september ár hvert á tilraunatímabilinu og þar til ófærð hamlar för en hjólreiðar yrðu heimilar óháð árstíma. Áfram verður heimilt að aka um Vonarskarð á frosinni, snævi þakinni jörð. Ákvörðunin verður nú send svæðisráði vestursvæðis þjóðgarðsins til umsagnar.
Að fenginni umsögn svæðisráðs verðu breytingatillagan kynnt í opnu kynningarferli. Upplýsingar og gögn vegna kynningarferlis munu birtast á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs og Náttúruverndarstofnunar.
Nánari upplýsingar er að finna í fundargerð svæðisstjórnar.